1.11.2006 | 21:54
Barnssálfræðingur
Sonur minn þriggja ára er barn og sálfræðingur...
Hinn sonur minn er nokkru yngri og á bleyjuborðinu iðar hann eins og ormur. Þegar blessuð saurbleyjan er tekin finnst mér, mömmunni ekkert leiðinlegra en þegar drengurinn snýr sér á alla kanta og verður eins og spírall í laginu. Ég á þá í fullu fangi við að halda kúknum þar sem hann á að vera og fara en ekki klína honum útum allt. Í kvöld átti ég í svona basli og byrsti mig við ómálga barnið, sagði því að vera kjurrt. Haldið þið ekki að þriggja ára guttinn sem beið tilbúinn í náttgallanum eftir kvöldsögunni sinni komi askvaðandi til mín í miðjum látunum og segir: Mamma HÆTTU þessu!! þú átt ekki að vera reið, þegar þú ert reið við litla bróður þá truflar þú mig.
Ég varð óskaplega sakbitinn og ætlaði að bera í bætifláka fyrir mig og útskýra málið fyrir þessum litla verndara en áttaði mig svo á því að það væri nú léleg afsökun og varð ósaplega auðmjúk og segi svo að þetta sé nú alveg rétt hjá litla snillingnum, ég eigi ekki að vera reið og þá klikkir hann því út að það sé rétt: já þetta er alveg rétt hjá mér mamma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 23:39
Ég er á limminu
Jáhá, ég er við það að fyllast viðbjóði á sælgætisáti. Kannski ég ætti að fá mér eina lúku í viðbót af nammi og þá fæ ég endanlegt ógeð á sjálfri mér og steinhætti þessum óþverra það sem eftir er ævinnar. Ekki veitir af þar sem sælgætis magnið hefur verið óhóflega mikið síðustu viku og ég hef ekki híft minn íburðamikla rass upp og drattast í ræktina. Mig vantar framtaksemi fram yfir löngun. Löngunin til að púla og svitna í ræktinni og snúa baki við óhollu mataræðinu er til staðar en framtaksemin er greinilega enn í sumarfríi á fullum launum. Erfitt að keppa við það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2006 | 22:35
Óvinir mínir
Ég er svo hamingjusamlega gift, háskólagengin tveggja barna móðir. Lífið leikur við mig, mig skortir ekki ást, peninga, vini, áhugamál, aukakíló eða óvini. Já, það er nú það, svona hamingjusöm eins og ég er þá á ég líka óvini.
Einn óvinur minn heitir Vanmetakennd og annar heitir Óöryggi. Svo á ég fleiri óvini sem kalla sig Nöldur og Tuð og frændi þeirra Stjórnsamur beinir spjótum sínum til mín. Sá síðastnefndi vill vera vinur minn en er það á fölskum forsendum. Stundum kemur hann sér vel en oft kemur hann mér líka í vandræði. Ég veit að allir eiga sína óvini og oftar en ekki eru þeir fleiri en mann grunar. Nú verð ég bara að finna út hvort ég eigi að gera þessa óvini að vinum mínum eða hreinlega útrýma þeim. Verst er þegar ég læt sem þeir eru ekki til, þá fá þeir tvíeflast þessir óvinir mínir.
Að lokum auglýsi ég eftir vininum sem ég kynntist fyrir nokkrum árum en hitti alltof sjaldan. Ofurkraftur hvar ertu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2006 | 20:46
Alltaf eins
Þegar ég var í framhaldskóla og háskóla var ég sérlega áhugasöm um að taka til í fataskápnum eða endurskipuleggja límmiðasafnið þegar kom að vinna heimanámið. Eitthvað sem ég hafði svo engan áhuga á í skólafríum. Núna er ég sest á skólabekk aftur til að nema spænsku. Eitthvað sem ég valdi sjálf af fúsum og frjálsum vilja vegna sterkrar löngunar til að kunna fleiri tungumál. (fyrri skólaganga var líka af fúsum og frjálsum en nú er ég eldri og alveg jafn vitlaus). En viti menn, haldið þið ekki að þessi sérkennilegi áhugi á að gera eitthvað annað en lexíurnar hafi kviknað aftur. Ó jú það kitlar hverja taug að strauja sokkaplöggin og þurrka rykið af dyrakörmunum. Ég tel sjálfri mér í trú um að það sé fásinna og ég ætti nú að geta hafið mig í heimanámið en hér er ég að blogga, eitthvað sem ég hef ekki gert í margar vikur.
Hver er boðskapur sögunnar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2006 | 08:18
Franskir sentimetrar.
Það voru Frakkar sem fundu upp metrakerfið og er það mjög snjallt mælieiningakerfi. En samt ekki nógu snjallt ef sentimetrarnir eru mislangir eftir löndum. Allar íslenskar mæður (takið eftir alhæfingunni) vita hvernig stærð smábarnafatnaðar er langoftast gefin upp í sentimetrum.
Ég var stödd í barnafataverslun sem selur frönsk barnaföt og hafði í hyggju að kaupa föt á son minn sem væru aðeins stærri en hann notar í dag. Sonur minn 6 mánaða, er u.þ.b. 65 sentimetra langur og notar föt af stærðinni 68 (sentimetrar) . Ég veit að það er altalað að númerin er frekar lítil í þessari verslun og tók tillit til þess. Ég valdi tvær flíkur sem gefnar voru upp fyrir 12 mánaða börn eða í stærðinni 74 (sentimetrar). Þegar ég borgaði fyrir flíkurnar þá var ég efins um að ég hefði valið rétta stærð, fötin virtust eitthvað svo lítil. En auðvitað reiknaði ég með að uppgefin stærð í sentimetrum væri marktakandi. Þegar heim var komið ákvað ég að máta fötin á drenginn og viti menn að drengurinn sem er eins og áður sagði u.þ.b. 65 sentimetrar rétt skrapp í föt sem sögð voru fyrir 74 sentimetra löng börn.
Hvaða ályktun get ég dregið aðra en þá að franskir sentimetrar hljóta að vera ívið styttri en þeir íslensku, eða hvað?
Að sjálfsögðu skilaði ég þessum frönsku 74 sentimetrum og fékk 81 franskan sentimetra í staðinn sem jafngildir 68 íslenskum sentimetrum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2006 | 07:51
Er ég gift sjálfri mér?
Já líkur sækir líkan heim. Ég er gift manni sem hefur afsakanir á reiðum höndum þegar hann stendur ekki við stóru orðin. Maðurinn minn er giftur mér og ég stend ekki við stóru orðin frekar en hann og hef í jafn stóran afsakanabanka að sækja í.
Maðurinn minn er einn af fáum sem lesa þetta blogg.....hann ætti kannski að blogga til mín í sömu mynt! Þar getur hann kallað mig dúllu án þess að ég fái nokkru um það ráðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2006 | 11:34
Hvað má segja og hvað ekki
Helgislepja yfir réttu orðavali ....það fer í taugarnar á mér þegar reynt er að bola burt góðum gildum orðum fyrir önnur sem eiga að vera ... ja ég veit ekki hvað. Kannski minna meiðandi eða réttari eða nútímalegri.
Dæmi úr bæklingi frá barnadeild Landspítalans
segja laga en ekki skera
segja æðaleggur en ekki nál og sprauta
eða í uppeldishandbókum og á leikskólum er alveg hætt að tala um skammarkrók heldur þurfa börn að fara í einvist eða einveru
"Jæja Jón minn, nú þarf að laga þig og setja upp æðalegg, ef þú verður ekki stilltur ferðu í einvist"
Æ þetta er fáránlegt, börn geta alveg orðið jafn hrædd við æðalegg og sprautu ef vitlaust er farið að þeim. Þetta snýst um gott fordæmi.
Ég gæti eflaust tínt til fleiri dæmi og rausað um þau en ég nenni því ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2006 | 20:53
Er eitthvað óskýrt?
Ég var kannski ekki alveg nógu skýrmælt í síðasta bloggi. Ég átti bara við að ég kláraði hreingerningameðferð á heimilinu og restin ætti að skýra sig sjálf.
En svo ég uppfræði ykkur þá er komið að því að moppa og skúra yfir gólfið aftur.
Tuskuóð kvensnift.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2006 | 21:23
Ég var að klára meðferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2006 | 23:08
Barna-handbók
Jú jú það er víst að maðurinn minn er svolítið spes...allavega þekki ég ekki neinn annan en hann sem les allar handbækur sem fylgja með hinum og þessum tækjunum sem keypt eru inn á heimilið. Enda veit hann líka hvernig hlutirnir virka, mun betur en margir aðrir.
Í dag sem endranær fann ég að hvernig hann gerði eða gerði ekki eitthvað sem tengist uppeldi og umhirðu barnanna okkar (það gera allar kellingar ekki satt?) en þá rann upp fyrir mér ljós afhverju það vantar stundum uppá að hann geri hluti sem ættu að vera sjálfsagðir. Það fylgdi engin handbók með börnunum okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)