Ferðabakterían

Nú er vinkona mín á leiðinni heim eftir langt ferðalag og mikið hlakka ég til að hitta hana.  Hún skellti sér í góða heimsreisu og svei mér þá ef það örlaði ekki á smá öfund hjá mér þegar ég frétti af henni á framandi slóðum.  Það vill svo til að ég er smituð af þessari ferðabakteríu og mér finnst fúlt að komast ekki til útlanda oftar en einu sinni á ári.  En það virðist ætla að rætast úr þessu hjá mér og það stefnir í tvær utanlandsferðir í ár....hjúkk.  Til að byrja með ákváðum við að fjölskyldan færi saman til Spánar og það yrði þá í fyrsta skipti sem ég færi í hefðbundna sólarlandaferð en ónei, við gátum ekki endað í pakkaferð með íslenskri fararstjórn.  Við skipuleggjum ferðina frekar sjálf, fljúgum út með Iceland Express og leigjum íbúð sem er ekki við strönd heldur aðeins inn til landsins (samt stutt í sjóinn) og svo verður bílaleigu bíll til taks til að skoða umhverfi, menningu og náttúru.  Ég spyr mig að því hvort ég eigi nokkurntímann að kaupa mér pakkaferð í bráð.  Reyndar eru líkur á að ferð númer tvö í ár verði einhverskonar pakka-borgarferð til Evrópu þ.e. ég kaupi flug og gistingu af sömu ferðaskrifstofu allt í einum pakka.....Mér finnst bara svo mikið skemmtilegra að vesenast í þessu sjálf þó að það kosti meiri fyrirhöfn og vinnu.

Þangað til ég stíg sjálf um borð í flugvél verð ég að smjatta á ferðasögum vinkonu minnar...ég get varla beðið. 

 

 


Er þetta blogg nógu áhugavert?

Ætli það fari ekki eins í ár og í mörg önnur ár þegar kosningar hafa verið.  Ég ætla mér alltaf að kynna mér mjög vel stefnumál allra flokka, bera þau saman og kjósa þann flokk sem mér lýst best á.  En svo þegar kosningadagurinn rennur upp  hef ég ekki gert neitt af þessu og vitneskja mín um þessi mál sem og önnur þjóðfélags og heimsmál rista ekki dýpra en fyrirsagnirnar í blöðunum.  

Ég verð líklegast að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ástæðan fyrir þessari pólitísku leti sé hreinlega ekki nógu mikill áhugi.  Eða eins og ég hef eftir jóga leiðbeinanda einum hér í bæ; leti er ekki til, það vantar bara áhugaverðari verkefni.  Það er ekki nóg að vilja það þarf að vilja mikið!

 Þetta er örugglega sama ástæðan og fyrir því að mér gengur illa að lifa heilsusamlegu líferni, mér finnst það hreinlega ekki nógu spennandi.  Það er mun áhugaverðara að kitla bragðlaukana með allri óhollustunni.  Belgja mig út af brauði og kexi og háma í mig risavaxna skammta sem duga heilli fjölskyldu í Afríku.  Mér hlýtur að finnast meira varið í maga, læri og rass sem líta út og eru eins viðkomu og ofhefað gerdeig en stinna kroppa.  Annars væri ég ekki svona...mjúk.  Mig vantar bara meiri áhuga á því að líta betur út en ég geri..........................eða hvað?


Hver gerir hvað?

Stundum er ég svolítið kokhraust.  Stundum er ég það upphátt og stundum í hljóði.  Um daginn átti ég smá samtal við prest í annarri sókn en minni.  Hann hafði heyrt af því að sonur minn yrði brátt skírður og spyr mig "ertu að fara að skíra drenginn næsta sunnudag?"  Ég var fljót að svara honum "nei, ég ætla að eftirláta prestinum það"  Þessi prestur varð svolítið kindarlegur og bætir einhverju við um að svona sé nú gjarnan tekið til orða eða eitthvað á þá leið.  Málið er að ég get hvorki skírt, fermt eða gift nokkurn skapaðan mann nema svona í þykjustunni.  Ekki frekar en ég get dæmt í sakamálum eða ....þið fattið.  Umræddur prestur á sjálfsögðu að vita þetta og passa sig á að falla ekki í sömu gryfju og óbreyttur almúginn að taka svona til orða.

Afhverju ég sagði þetta við prestinn er ekki af því að ég vil spila mig sem einhvern besserwisser heldur vegna þess að mér finnst að sumir hlutir eigi að vera á hreinu.  Og endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál.


Sumar

Nú mætti snjórinn gufa upp og vorið hefja innreið sína.  Mig langar alveg heilan helling að viðra tásurnar og læsa lopapeysurnar inn í skáp.  Sól sól skína á mig o.s.fr.  Mig er farið að dreyma um að Ísland verði við miðbaug þegar ég vakna á morgun.  Ég get vel sætt mig við það að sumarkvöld á Íslandi væru heit... skella sér á kaffihús á kvöldin og hitastigið væri enn yfir 20°C og vonandi sjá allir að sjálfsögðu er um úti kaffihús að ræða.  Sandalar, létt sumarföt, lykt af sólarvörn....ummm þetta eru draumórar.

Um daginn var þema í vinnunni hjá manninum mínum og allir starfsmenn áttu að mæta í sumarfötum.  Það var ekki nema einn sem var raunsær og mætti í íslenskum sumarklæðnaði; appelsínugulum regnstakki! 


Gufan

Gamla góða gufan.  Já ég hlusta stundum á hana (reyndar langoftast ef ég kveiki á útvarpinu) og hef oftast gaman af.  Til dæmis finnst mér þátturinn Orð skulu standa mjög skemmtilegur.  Stundum dett ég inn á þáttinn Í vikulokin og í þeim þætti furða ég mig á hversu oft ég er ósammála viðmælendum með margt eða finnst umræðan hreint og beint leiðinleg. 

Síðasta laugardag voru nokkrar kellur í þættinum og einn karl.  Þar voru m.a. rædd jafnréttismál, allt í lagi með það, sjálfsagt að ræða þau.  En það sem pirrar mig er nálgunin við efnið og allskonar alhæfingar.  T.d. fullyrtu konurnar helbera nauðsyn þess að auka þyrfti hlut kvenna í stjórnunarstöðum og þar fram eftir götunum en samkvæmt niðurstöðum einhverrar rannsóknar hefur hlutfall kvenna ekki aukist í stjórnunarstöðum síðast liðin 10 ár.  Til að gera konum kleyft að taka virkari þátt í þarf að jafna þátttöku karla í verkum heimilisins. 

Allt í lagi þetta var það sem kom fram í þættinum en nú má ég segja frá mínum pælingum.  Hvað ef meirihluti kvenna kærir sig ekki um ábyrgðarstöður/stjórnunarstöður, þarf að pína þær í það bara vegna þess að þær eru konur?   Hvað ef konur eru ekki tilbúnar að sleppa tökunum á heimilishaldinu? 

Reyndar verð ég nú að segja ,sem kona sem talað hefur við ótal konur, þá virðist mér að margar konur leyfa karlpeningnum ekki að taka virkari þátt í heimilishaldi þó þeir vildu.  Meðvitað eða ómeðvitað veit ég ekki en hversu oft taka konur fram fyrir hendur manna sinna þegar kemur að mörgum heimilisverkum?  Einfaldlega vegna þess að þær treysta mönnunum ekki til að gera þetta jafnvel og þær gera.  Þeim er  bara ýtt til hliðar og það er letjandi fyrir blessaða karlana.  Til hvers að gera eitthvað ef alltaf er fundið að því sem gert er?  Þá er betra að sleppa heimilisverkunum... nei ekki aldeilis því þá kvarta konurnar enn meira yfir letihaugnum á heimilinu.  Þegar staðan er svona þá má segja að langflestar konur í sambúð eru stjórnunarstöðum þrátt fyrir allt, þær eru framkvæmdastjórar á sínu heimili.. og ekki endilega góðir stjórnendur eða hvað?

 Þetta er bara ein sýn á málið...Ég fyrir mitt leyti kæri mig ekki að vera framkvæmdastjóri annarstaðar en heima hjá mér, það er nóg.

 Stundum væri gaman að heyra umræðu um jafnréttismál á þennan veg: Auka þarf hlutfall karla í umönnunarstörfum á elliheimilum.  


Bleh

Úff púff, ég ætlaði að blogga um eitthvað merkilegt og fyndið en um leið og ætlaði að byrja þá tók tappann úr og ég sit hérna með tóman haus, gjörsamlega andlaus.  Það hvarflar að mér enn og aftur að þetta blogg er rugl: til hvers að röfla um allt og ekkert.   En núna kom það til baka...ég man hvað ég ætlaði að skrifa um en fatta um leið að það er hvorki merkilegt né fyndið. Sorrý Stína (hver er þessi Stína?) ég reyni aftur seinna.

Appelsínur

Nú er mál að útskýra hitt og þetta.  Af hverju valdi ég mynd af appelsínum á síðuna mína, jú þetta gæti allt eins verið mynd af lærunum á mér.  Og afhverju valdi ég kvonfang sem blogg? ja það passar ágætlega við veffang og netfang og ef þú ferða á kvonfang þá hittir þú kvensnift.   Frekari naflaskoðun fer fram síðar.

Enn einn vitleysingurinn farinn að blogga

Já þá er það orðið ljóst, þörf mín til að dreifa enn meiri hugarskít en þegar er gert á öllum heimsins bloggsíðum er orðin opinber.  Ég hef ekkert nýtt fram að færa, engu fleiru að bæta við en ætla samt að láta slag standa.  Hver ætti svo sem að hafa áhuga á að lesa mitt raus, hafa ekki allir nóg með sitt.  Í rauninni skil ég ekki afhverju ókunnugt fólk hefur áhuga á að lesa þvælu annars ókunnugs fólks, sér í lagi ókunnugs fólks sem er ekki frægt eða hefur unnið sér það inn að birtast á forsíðu Séð og Heyrt.  En hins vegar skil ég mæta vel löngunina til að þeyta hugsunum frá sér með því að tala, syngja, yrkja, skrifa eða blogga.  Til dæmis allar dagbækurnar sem hafa verið skrifaðar í gegnum aldirnar en voru aldrei ætlaðar til lesturs...og þó, er ekki tilgangurinn með dagbókum sá að þær séu lesnar?  Ef ekki um leið þá að minnsta kosti síðar.  Bloggið er breytt dagbókarform.  Í stað þess að fela dagbækurnar frá forvitnum augum þá eru þær opinberaðar öllum en takið eftir...oft í skjóli nafnleyndar...eins og ég.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband