13.4.2006 | 00:54
Enn einn vitleysingurinn farinn að blogga
Já þá er það orðið ljóst, þörf mín til að dreifa enn meiri hugarskít en þegar er gert á öllum heimsins bloggsíðum er orðin opinber. Ég hef ekkert nýtt fram að færa, engu fleiru að bæta við en ætla samt að láta slag standa. Hver ætti svo sem að hafa áhuga á að lesa mitt raus, hafa ekki allir nóg með sitt. Í rauninni skil ég ekki afhverju ókunnugt fólk hefur áhuga á að lesa þvælu annars ókunnugs fólks, sér í lagi ókunnugs fólks sem er ekki frægt eða hefur unnið sér það inn að birtast á forsíðu Séð og Heyrt. En hins vegar skil ég mæta vel löngunina til að þeyta hugsunum frá sér með því að tala, syngja, yrkja, skrifa eða blogga. Til dæmis allar dagbækurnar sem hafa verið skrifaðar í gegnum aldirnar en voru aldrei ætlaðar til lesturs...og þó, er ekki tilgangurinn með dagbókum sá að þær séu lesnar? Ef ekki um leið þá að minnsta kosti síðar. Bloggið er breytt dagbókarform. Í stað þess að fela dagbækurnar frá forvitnum augum þá eru þær opinberaðar öllum en takið eftir...oft í skjóli nafnleyndar...eins og ég.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.