5.7.2006 | 08:18
Franskir sentimetrar.
Það voru Frakkar sem fundu upp metrakerfið og er það mjög snjallt mælieiningakerfi. En samt ekki nógu snjallt ef sentimetrarnir eru mislangir eftir löndum. Allar íslenskar mæður (takið eftir alhæfingunni) vita hvernig stærð smábarnafatnaðar er langoftast gefin upp í sentimetrum.
Ég var stödd í barnafataverslun sem selur frönsk barnaföt og hafði í hyggju að kaupa föt á son minn sem væru aðeins stærri en hann notar í dag. Sonur minn 6 mánaða, er u.þ.b. 65 sentimetra langur og notar föt af stærðinni 68 (sentimetrar) . Ég veit að það er altalað að númerin er frekar lítil í þessari verslun og tók tillit til þess. Ég valdi tvær flíkur sem gefnar voru upp fyrir 12 mánaða börn eða í stærðinni 74 (sentimetrar). Þegar ég borgaði fyrir flíkurnar þá var ég efins um að ég hefði valið rétta stærð, fötin virtust eitthvað svo lítil. En auðvitað reiknaði ég með að uppgefin stærð í sentimetrum væri marktakandi. Þegar heim var komið ákvað ég að máta fötin á drenginn og viti menn að drengurinn sem er eins og áður sagði u.þ.b. 65 sentimetrar rétt skrapp í föt sem sögð voru fyrir 74 sentimetra löng börn.
Hvaða ályktun get ég dregið aðra en þá að franskir sentimetrar hljóta að vera ívið styttri en þeir íslensku, eða hvað?
Að sjálfsögðu skilaði ég þessum frönsku 74 sentimetrum og fékk 81 franskan sentimetra í staðinn sem jafngildir 68 íslenskum sentimetrum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.