12.5.2006 | 22:48
Ferðabakterían
Nú er vinkona mín á leiðinni heim eftir langt ferðalag og mikið hlakka ég til að hitta hana. Hún skellti sér í góða heimsreisu og svei mér þá ef það örlaði ekki á smá öfund hjá mér þegar ég frétti af henni á framandi slóðum. Það vill svo til að ég er smituð af þessari ferðabakteríu og mér finnst fúlt að komast ekki til útlanda oftar en einu sinni á ári. En það virðist ætla að rætast úr þessu hjá mér og það stefnir í tvær utanlandsferðir í ár....hjúkk. Til að byrja með ákváðum við að fjölskyldan færi saman til Spánar og það yrði þá í fyrsta skipti sem ég færi í hefðbundna sólarlandaferð en ónei, við gátum ekki endað í pakkaferð með íslenskri fararstjórn. Við skipuleggjum ferðina frekar sjálf, fljúgum út með Iceland Express og leigjum íbúð sem er ekki við strönd heldur aðeins inn til landsins (samt stutt í sjóinn) og svo verður bílaleigu bíll til taks til að skoða umhverfi, menningu og náttúru. Ég spyr mig að því hvort ég eigi nokkurntímann að kaupa mér pakkaferð í bráð. Reyndar eru líkur á að ferð númer tvö í ár verði einhverskonar pakka-borgarferð til Evrópu þ.e. ég kaupi flug og gistingu af sömu ferðaskrifstofu allt í einum pakka.....Mér finnst bara svo mikið skemmtilegra að vesenast í þessu sjálf þó að það kosti meiri fyrirhöfn og vinnu.
Þangað til ég stíg sjálf um borð í flugvél verð ég að smjatta á ferðasögum vinkonu minnar...ég get varla beðið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.